Nokkur orð um teiknigáfu Örlygs Sigurðssonar listmálara og rithöfundar.

Höf. Kjartan Atli Ísleifsson

Góðvinir mínir og skötuhjúin Karólína Rósa Ólafsdóttir og Boaz Yosef Friedman settu nýverið á stofn Íslenska teiknisetrið. Helstu markmið setursins er að búa til svæði sem skoðar íslenska teikningu í allri sinni dýrð; sögu hennar og staðsetningu sem samskiptatæki, þar á meðal myndskreytingar, náttúrufræði teikningar og jafnvel kort, ásamt því að skoða samtíma teiknara og verk. Þetta er svo sannarlega þarft og virðingarvert verkefni hjá Karólínu og Boaz. Sjálfur hef ég mikinn áhuga á íslenski myndlist og finnst mér einkar jákvætt að íslenskri teikningu í tímans rás verði gerð betri skil. Það var einmitt vegna þessa áhuga míns sem Karólína spurði mig hvort ég væri til í að koma með stutt innlegg um eitthvað sem tengdist íslenskri teikningu. Var það meira en sjálfsagt. Þegar ég hugsa um íslenska teikningu og teiknara hér á landi kemur Örlygur Sigurðsson (1920–2002) listmálari og rithöfundur einna fyrstur upp í hugann. Óhætt er að fullyrða að Örlygur var snillingur á þessu sviði myndlistarinnar og var án efa einn besti teiknari Íslands síns tíma. Hann teiknaði mest myndir af fólki. Annars er það ekki mitt að meta gildi teikninganna, enda hef ég ekki menntun í slíkt. En þó menntun í listfræði sé til staðar eður ei, sér hver sá sem lítur teikningar Örlygs augum að hann hafði mikla hæfileika á þessu sviði myndlistarinnar.

Örlygur virðist að mörgu leyti vera hálf gleymdur. Honum og hans myndlist hafa t.d. verið gerð sáralítil skil í íslenskri listasögu. Í þriðja bindi bókaflokksins Íslensk listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar eru einungis nokkrar línur um hann.1 Valgarður Stefánsson fjallar einnig stuttlega um hann í yfirlitsriti sínu, Myndlist á Akureyri. Að fornu og nýju.2 Í bókinni Reykjavík málaranna eftir Hrafnhildi Schram er Örlygs einnig getið en sú umfjöllun fjallar einkum um olíumálverk hans úr Laugardalnum.3 Þá er það svo gott sem upptalið það sem hefur verið fjallað um Örlyg. Hér er ekki ætlunin taka saman heilsteypt yfirlit yfir listmálaraferil Örlygs, enda væri það efni í mun stærra verk. Ætlunin hér er að segja nokkur orð um teikningar hans en einnig stikla á stóru á því helsta sem hann fékkst við á sínu æviskeiði.

Örlygur Sigurðsson fæddist 13. febrúar árið 1920 í Reykjavík. Foreldrar hans voru skólameistarahjónin Sigurður Guðmundson og Halldóra Ólafsdóttir. Örlygur ólst upp á Akureyri, en þegar hann var eins árs fluttist hann ásamt foreldrum og tveimur eldri systkinum til Akureyrar. Tilefnið var að faðir hans Sigurður Guðmundson var að taka við skólameistarastöðu Gagnfræðaskólans á Akureyri, sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri (1930). Sigurður gegndi því embætti til 1947. Í þá daga hafði skólameistari íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína syðst í skólahúsinu og ólst því Örlygur upp í því. Húsið var reist árið 1904 og var án efa eitt glæsilegasta timburhús landsins á þeim tíma. Það er enn í notkun og gengur í daglegu tali undir heitinu „Gamli skóli“. Íbúð skólameistara heyrir þó sögunni til. Örlygur lýsir húsinu á eftirminnilegan hátt í bók sinni Bolsíur frá Bernskutíð: „Þetta stóra hús, þessi hvíta höll, gnæfði hátt og tignarlega yfir höfuðstað Norðurlands.“4 Það lá beint við að Örlygur færi í MA og varð hann stúdent þaðan 1940. Ári síðar fluttist hann til Bandaríkjanna og hóf þar listnám. Flestir íslenskir listmálarar á árunum á undan höfðu farið til Evrópu í listnám, en vegna stríðsins var Evrópa lokuð. Voru þó nokkir íslenskir listmálarar á þessum árum sem lærðu í Bandaríkjunum, þ.á.m. Örlygur. Af öðrum listmálurum sem stunduðu listnám í Bandaríkjunum má til dæmis nefna Kjartan Guðjónsson, Halldór Pétursson, Nínu Tryggvadóttur og Valtý Pétursson.5

Á árunum 1941–1945 stundaði hann myndlistarnám í fjórum skólum þar vestra: fyrst við University of Minnesota í Minneapolis og Minneapolis School of Arts (1941–1942), síðan Chouinard School of Art í Los Angeles í Kaliforníu (1942–1944) og loks Artstudents League í New York (1944–1945). Þá stundaði hann listnám í París á árunum 1948–1949. Örlygur giftist Unni Eiríksdóttur árið 1946 og settust þau að í Laugardalnum í Reykjavík.6 Að námi loknu sýndi Örlygur mikið, en eftir því sem á leið minnkaði það mikið vegna portrettmyndagerðar. Það má segja að á árabilinu 1960–1980 hafi Örlygur verið einn helsti portrettmálari Íslands og eru margar opinberar stofnanir sem eiga portrettmyndir eftir Örlyg. Á tímabili málaði hann mest eftir pöntunum. Þetta var í þá daga þegar rík hefð var fyrir því að stofnanir létu mála fyrir sig myndir af einhverjum sem við þeim komu, eða að þær fengu gefins málverk. Til dæmis þegar gamlir nemendur skóla gáfu málverk af fyrrum kennara sínum. Mikið hefur dregið úr þessari hefð á síðastliðnum 10–20 árum. Fróðlegt hefði verið að sjá þróun verka Örlygs ef hann hefði ekki farið þessa leið í listinni, það er að helga sig að mestu portrettmyndagerðinni. Síðustu ár Örlygs voru honum erfið og var hann mikið veikur. Hann lést 24. október árið 2002.

Snemma munu teiknihæfileikar Örlygs hafa komið í ljós. Í MA var hann síteiknandi, einkum skopmyndir af kennurum og nemendum skólans. Árin fyrir lokaár sitt við skólann teiknaði hann til að mynda nokkrar teikningar í Carminu.7 Þá birtust einnig teikningar eftir hann i skólablaðinu Muninn á þeim árum sem hann var í skólanum.8 Hann teiknaði allan árganginn sinn í Carminu 1940 og er hún ein sú eftirminnilegasta í þeirri ritröð. Á myndinni hér að neðan, má sjá sjálfsmynd Örlygs úr Carminu 1940. Ekki er ólíklegt að Sigurður skólameistari, faðir Örlygs hafi hvatt hann áfram í myndlistinni og eflaust haft áhrif á hann. Sigurður var mjög menningarlega sinnaður og fannst list mikilvæg. Til að mynda beitti hann sér fyrir því að skólinn kæmi sér upp listaverkasafni.

Sjálfsmynd Örlygs í Carminu Menntaskólans á Akureyri, 1940

Óhætt er að fullyrða að Örlygur hafi verið sérstaklega góður skopteiknari og hann átti auðvelt með að draga fram karakter módelsins með nokkrum pennastrikum. Eflaust mætti færa rök fyrir því að skopteikningarnar og teikningar hans almennt séu það besta sem eftir hann liggur og þar hæfi hæfileikar hans best notið sín.9 Fyrir Örlygi var einkar mikilvægt að draga fram karakter þess sem hann var að teikna eða mála og ýkja hann dálítið, í stað þess að reyna að gera einungis tæknilega vel gerða mynd, það er eins konar ljósmyndalega stælingu. Það að hann hafi fengist mikið við skopteikningar hjálpaði honum mikið í portrettmyndagerðinni. Hann sagði til dæmis í blaðaviðtali árið 1976:

„Ég reyndi að skyggnast undir yfirborðið þegar ég mála menn. Maður ýkir ofurlítið sérkenni og reynir að láta manninn sjálfan koma fram. Það hjálpar mér mikið við þetta að ég vann hér áður fyrr við karikatur. Ég teiknaði skopmyndir af fólki.“10

Örlygur virðist allt frá barnæsku hafa verið einkar spaugsamur og kíminn einstaklingur. Hann tók lífinu af hæfilega mikilli alvöru og gat snúið nánast hverju sem er upp í grín. Flestir sem kynntust Örlygi fannst hann einkar skemmtilegur og lífgaði karakter hans og sál upp á tilveruna.11 Hann hafði sömuleiðis gaman af því að storka yfirvaldinu og ríkjandi valdboðum og reglum, að minnsta kosti á yngri árum. Þetta sést til dæmis á því að Örlygur teiknaði reglulega skopmyndir af kennurum sínum í MA. Í þá daga var kennarastéttin afar karllæg og mun hafa verið nokkuð hátt sett embætti. Ætlast var til þess að nemendur litu hátt á kennara. Nemendur voru komnir til þess að afla sér ákveðinnar þekkingar, og hana var aðeins að finna í kennslubókum og hjá kennurunum. Valdaskiptingin var skýr og greinileg. Fremst í áðurnefndri Carminu 1940 teiknaði Örlygur þrjá af kennurum skólans og stillti þeim þannig upp að hver og einn varð táknmynd þriggja landa í seinni heimsstyrjöldinni, en þá var stríðið í fullum gangi: Þórarinn Björnsson frönskukennara fyrir Frakkland, Sigurð Líndal Pálsson enskukennara fyrir Bretland og Brynleif Tobíasson latínukennara fyrir Þýskaland.

Kennaramynd úr Carminu, 1940

Brynleifur var talinn vera stuðningsmaður Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og mikill Þýskalandsvinur og þjóðernissinni. Brynleif hafði hann uppklæddan í herbúning ásamt upphandsleggsbandi með merki nasista. Örlygur gekk þó enn lengra ári síðar síðar þegar hann teiknaði Brynleif upp í rúmi með Elísabetu Eiríksdóttur, sem þá fremst í flokki kommúnista staðarins. Gaf Örlygur hana út á póstkorti og kærði yfirkennarinn hann fyrir myndina. Örlygur var þó að lokum sýknaður af veigamestu liðum kærunnar. Síðar tókust sættir með þeim Brynleifi og Örlygi er sá síðarnefndi var fenginn af gömlum nemendum MA til þess að mála þann fyrrnefnda. Lofaði Örlygur að vera ekki með nein skrípalæti í þetta skiptið. Voru þeir báðir einkar ánægðir með útkomuna.12

Þessi kímni í verkum Örlygs skilaði sér þó ekki aðeins í skopteikningar heldur gjarnan í olíumálverk líka, og er Örlygur einn fárra íslenskra listmálara á 20. öld sem kom kímni, gríni og skopi með afgerandi hætti í myndir sínar. Bæði mátti sjá það á myndefninu sjálfu, en einnig var gjarnan á myndinni meðfylgjandi texti sem útskýrði tilurð myndarinnar eða hvað var þar um að vera.

Atlantshafsmálarinn Gunnlaugur Scheving, 1970

Í seinni tíð merkti Örlygur stundum myndir sínar sömuleiðis með skemmtilegum hætti. Auk þess að kvitta undir myndirnar „Örlygur“ teiknaði hann gjarnan sjálfan sig inn í bókstafinn Ö. Þannig varð hann í bókstaflegri merkingu sjálfur hluti af myndverkinu.

Undirskrift Örlygs á málverki sínu af Sæmundi Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda.

Þá voru heiti verkanna eða titill þeirra oft á spaugsömum nótum. Örlygur var nefnilega sömuleiðis mjög orðheppinn maður og góður penni. Á fimmtán árum skrifaði hann og myndskreytti fimm bækur.13 Þar var húmorinn svo sannarlega í fyrirrúmi. Flestar voru það endurminningarbækur, gjarnan sagt frá fólki sem Örlygur hitti eða atburðum sem hann varð vitni að. Bókin Bolsíur frá bernskutíð segir til dæmis frá uppvaxtarárum Örlygs á Akureyri. Ásamt textanum fylgdu með tugir teikninga, sem þá voru nýjar en gerðar með hliðsjón af löngu liðnum æskudögum á Akureyri. Allar bækurnar gaf Örlygur út sjálfur undir útgáfunni Geðbót, en að eigin sögn var skrifstofa Geðbótar í Volvo Örlygs.14

Þá voru minningargreinar og afmæliskveðjur Örlygs oft eftirminnilegar. Um þær hann sagði sjálfur eitt sinn í viðtali:

,,Ég hef gefið sumum í afmælisgjöf að skrifa ekki um þá í Moggann, og aðrir hafa frestað því að deyja af einskærum ótta við að ég mundi skrifa um þá minningargrein, t.a.m. frænkur mínar margar hér fyrir sunnan – og hafa þær náð háum aldri fyrir bragðið. Þannig hef ég stuðlað að langlífi fólks – og geri aðrir betur.“15


Ein bóka Örlygs sker sig dálítið úr, Nefskinna frá árinu 1973. Tilefni bókarinnar var endurkoma Örlygs í sýningarsalina (bæði tók hann þátt í samsýningu á Kjarvalsstöðum og var að undibúa einkasýningu í Norræna húsinu). Þá hafði hann ekki sýnt í 12 ár vegna portrettmyndagerðar líkt og fyrr segir. Stundum fékk hann þó „inspírasjón við og við og festi hana á léreftið.“16 Nefskinna var gefin út í stóru broti og var sérstaklega tileinkuð dráttlistinni. Innihald hennar voru teikningar af fólki eftir Örlyg frá ýmsum tímum á ferlinum, en mest voru þetta tækifæristeikningar. Ásamt teikningunum var texti sem sagði frá fyrirmyndunum. Þrátt fyrir að Örlygur hefði ekki sýnt lengi teiknaði hann alltaf mikið, en oft var um að ræða myndir af fólki með skemmtilegan og sérstakan karakter sem Örlygi langaði að koma til skila í teikningu. Líkt og við höfum séð var það Örlygi mikilvægt að gera karakternum góð skil. Hann sagði um mannamyndateikningar í Nefskinnu:

„Það er á stundum einna líkast því að kippa þröngum og grónum tappa úr ævagamalli flösku, þegar draga skal sálina úr fyrirmyndinni og koma henni til skila í teikningu. Það sýkkólógíska í andlitsteikningu er að mínu viti miklu meira virði en kaldar og tæknilega vel gerðar myndir“17


Hægt væri að ræða teikningar og listsköpun Örlygs á mun ítarlegri hátt en að þessu sinni verður látið staðar numið. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af teikningum sem liggja eftir Örlyg frá ýmsum tímum ferilsins. Það er þó viðeigandi að ljúka þessari grein á orðum Örlygs úr Nefskinnu:

„Teikning hefir ekki verið í hávegum höfð í þessu landi, því ber að hafa í huga, að þegar við hættum að teikna, hættum við að sjá.“


Kjartan Atli Ísleifsson (f.1997) er sagnfræðingur og starfar á Minjasafni Akureyrar.

  1. Íslensk listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar III, 22, 256. ↩︎
  2. Valgarður Stefánsson, Myndlist á Akureyri. Að fornu og nýju, 69–71. ↩︎
  3. Hrafnhildur Schram. Reykjavík málaranna = : Reykjavík of the painters = Reykjavík der Maler, 62–63. ↩︎
  4. Örlygur Sigurðsson, Bolsíur frá Bernskutíð, 78. ↩︎
  5. Íslensk listasaga III, 22. ↩︎
  6. Æviskrár MA-stúdenta I, 1927–1944, 313–314. ↩︎
  7. Carmina er bók sem gefin er út ár hvert af útskriftarnemendum skólans (fyrst 1934), en í henni eru skopmyndir af nemendum og gjarnan texti með. ↩︎
  8. Sjá t.d. 12. árgang Munins (3. tölublað) frá vetrinum 1938–1939. ↩︎
  9. Bragi Ásgeirsson myndlistargagnrýnandi og myndlistarmaður tekur í sama streng í umfjöllun sinni um sýningu Örlygs í Norræna húsinu árið 1973. Sjá: Bragi Ásgeirsson, „Tvær sýningar,“ 8. ↩︎
  10. Jón Ormur Halldórsson, „Ég fœ inspírasjón við og við og festi hana þá á léreftið,“ 6. ↩︎
  11. Sbr. fjölmörgum minningargreinum vina og ættingja sem minntust Örlygs er hann lést árið 2002. ↩︎
  12. Örlygur greinir frá þessum atburðum nokkuð ítarlega í sinni fyrstu bók. Sjá: Örlygur Sigurðsson, Prófílar og pamfílar: Lýsingar með penna og pennsli eftir Örlyg Sigurðsson, 152–155. ↩︎
  13. Sjá eftirtaldar bækur: Prófílar og pamfílar (1962), Þættir og drættir: Vestan hafs og austan (1966), Bolsíur frá Bernskutíð (1971), Nefskinna: 30 ásjónur í hóp, Örlygur Sigurðsson skóp (1973) og Rauðvín og reisan mín: Upp upp mín sál og allt mitt geð: Farið um Frans: Veizlan á Vesturbrú (1977). ↩︎
  14. Jón Ormur Halldórsson, „Ég fœ inspírasjón við og við og festi hana þá á léreftið,“ 6–7. ↩︎
  15. „Reykjavíkurbréf,“ 16–18. ↩︎
  16. Jón Ormur Halldórsson, „Ég fæ inspírasjón við og við og festi hana þá á léreftið,“ 6. ↩︎
  17. Örlygur Sigurðsson, Nefskinna, 2. ↩︎

Heimildaskrá

„Álfar á jólanótt.“ Lesbók Morgunblaðsins, 24. desember 1976, 8–11.

„Reykjavíkurbréf.“ Morgunblaðið, 20. nóvember 1977, 16–18.

Bragi Ásgeirsson. „Tvær sýningar.“ Morgunblaðið, 17. nóvember 1973, 8.

Carmina. Akureyri: Menntaskólinn á Akureyri, 1939.

Carmina. Akureyri: Menntaskólinn á Akureyri, 1940.

Hrafnhildur Schram. Reykjavík málaranna = : Reykjavík of the painters = Reykjavík der Maler. Reykjavík : Mál og menning, 2000.

Jón Ormur Halldórsson. „Ég fæ inspírasjón við og við og festi hana þá á léreftið.“ Vísir, 12. september 1976, 6–7.

Íslensk listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar I–V, ritstj. Ólafur Kvaran. Reykjavík: Listasafn Íslands, Forlagið, 2011.

Muninn 12: 3 (1939).

Valgarður Stefánsson. Myndlist á Akureyri. Að fornu og nýju. Akureyri: Hólar, 2005.

Æviskrár MA-stúdenta I, 1927–1944, ritstj. Gunnlaugur Haraldsson. Reykjavík: Steinholt, 1988.

Örlygur Sigurðsson. Bolsíur frá Bernskutíð. Reykjavík: Geðbót, 1971.

Örlygur Sigurðsson. Nefskinna: 30 ásjónur í hóp, Örlygur Sigurðsson skóp. Reykjavík: Geðbót, 1973.

Örlygur Sigurðsson. Prófílar og pamfílar: Lýsingar með penna og pennsli eftir Örlyg Sigurðsson. Reykjavík: Geðbót, 1962.

Örlygur Sigurðsson. Rauðvín og reisan mín: Upp upp mín sál og allt mitt geð: Farið um Frans: Veizlan á Vesturbrú. Reykjavík: Geðbót, 1977.

Örlygur Sigurðsson. Þættir og drættir: Vestan hafs og austan. Reykjavík: Geðbót, 1966.